Hæsta tré heims er 110m á hæð

Skráning

Allir nemendur úr 9. og 10. bekk grunnskóla í Reykjavík sem áhuga hafa eiga kost á sumarstarfi í Vinnuskóla Reykjavíkur. Það þarf því ekki að sækja um að  nemendur komist að heldur einfaldlega að skrá þá.

Þegar nemandi er skráður í Vinnuskólann er gengið út frá því að viðkomandi lýsi þar með yfir vilja til að taka fullan þátt í starfi skólans, vinna samviskusamlega þau verk sem honum eru falin og sýna kurteisi í samskiptum við starfsfólk skólans, samnemendur og borgarbúa.

Skráningin

Skráning í Vinnuskóla Reykjavíkur fer fram í gegnum "Rafræna Reykjavík" (sjá nánar hér neðar á síðunni) eins og flestar umsóknir hjá Reykjavíkurborg í dag . Okkur finnst æskilegt að foreldrar og unglingar fari saman í gegnum skráninguna og kynni sér um leið mikilvæg atriði í starfi skólans, m.a. skóla- og starfreglur og verkefni og öryggismál. Eins er gott að kynna sér starfstímabil og launakjör, en velja þarf annað tveggja tímabila í starfi. 

Við bendum á nokkur mikilvæg atriði sem hafa þarf í huga við skráningu:

 • Til að komast í gegnum skráninguna verður að hafa við höndina bankareikningsnúmer viðkomandi unglings. Hjá þessu verður ekki komist og um leið er tryggt að hægt verði að greiða nemendum laun á réttum tíma í sumar.
 • Við óskum eftir netföngum bæði nemenda og foreldra. 
  • Netföng nemenda þurfum við til þess að geta sent þeim könnun um líðan í starfi. Það er gott að athuga það að skólanetföng nemenda úr 10. bekk lokast að skólaárinu loknu og því ekki hægt að notast við þau.
  • Netföng foreldra er gott að hafa ef við þurfum að senda út tilkynningar eða upplýsingar.
 • Það er afar mikilvægt að veita því athygli að á síðustu síðu skráningar þarf að ýta á "SENDA" neðst í hægra horni síðunnar (í 5. skrefi skráningar) til þess að skráningin fari í gegn. 

Að skráningu lokinni

Að skráningarfresti liðnum tekur starfsfólk skrifstofu Vinnuskólans til við að raða nemendum í hópa og á tímabil. Aldur og búseta ráða mestu um það hvar nemendur raðast. Það eru undantekningar ef nemendur þurfa að vinna utan síns hverfis en í einhverjum tilvikum eru árgangarnir tveir saman í hóp. Nemendur þurfa jafnframt að vera viðbúnir mögulegum breytingum, einkum hvað varðar starfsstöðvar, því verkefni skólans eru víðs vegar um borgina. 

 • Við vekjum athygli á því að við lítum svo á að nemendur geti lært mikið á því að starfa með öðrum en sínum félögum úr skóla. Ekki er gert ráð fyrir því að raða vinum  og vinkonum saman í hópa í sumarstarfinu, en við bendum þó á að í flestum eða öllum tilvikum starfa nemendur með jafnöldrum sínum úr sama skóla. 
 • Í byrjun júní má gera ráð fyrir að upplýsingar um niðurröðun liggi fyrir og verði aðgengilegar í svo kölluðum vinnukortum inni á Rafrænni Reykjavík. Tilkynning um það verður birt hér á heimasíðunni þegar þar að kemur.

 

Rafræn Reykjavík

Íbúar Reykjavíkur eiga kost á aðgangi að Rafrænni Reykjavík sem veitir aðgang að umsóknum hjá borginni. Upplýsingar um það hvernig sótt er um aðgang, hvernig fólk skráir sig inn og fleira má nálgast hér

Eftirfarandi atriði sem tengjast Vinnuskólanum má nálgast í umsóknum undir fyrirsögninni "Atvinna hjá Reykjavíkurborg":

 • Skráning í Vinnuskóla Reykjavíkur
 • Vinnukort
 • Umsagnir