Þörf fyrir stuðning eða sérúrræði

 • 1. Stuðningur og sértæk úrræði

  Vinnuskóli Reykjavíkur er skóli án aðgreiningar og er því opinn öllum nemendum óháð fötlunum, sjúkdómum eða öðru sem getur haft áhrif á starfsgetu viðkomandi unglings. Við reynum að koma til móts við ólíkar þarfir og að finna úrræði og lausnir þegar þörf er á, í samráði við foreldra og nemendur.

  Mikilvægt er að tiltekið sé við skráningu ef talin er þörf á sérúrræði og/eða stuðningi af einhverju tagi. Við höfum þá samband við foreldra og vinnum að lausn áður en gengið er frá röðun í hópa. 

  Nánar um skóla án aðgreiningar: Skóli án aðgreiningar hjá Reykjavíkurborg (hlekkurinn opnast í nýjum glugga).

   

   

 • 2. Nemendur með ofnæmi, sjúkdóma eða önnur frávik

  Það er mikilvægt að taka það fram við skráningu ef talin er þörf á sérúrræði vegna ofnæmis eða sjúkdóms. 

  Gróður-, gras- og frjókornaofnæmi eru tiltölulega algeng. Einstaklingsbundið er hvernig gengur að halda einkennum í skefjum með lyfjagjöf. Í þeim tilvikum þar sem ofnæmi af þessu tagi eru mjög slæm bjóðum við nemendum að starfa í málningarhóp. Störfin þar eru ekki við sláttur eða beðahreinsun en eru þó úti við. 

  Það er mikilvægt fyrir okkur að fá upplýsingar um sjúkdóma, bráðaofnæmi eða annað sem haft getur áhrif á störf viðkomandi unglings og hvernig bregðast skal við ef eitthvað kemur upp á.

   

   

   

 • 3. Fatlaðir nemendur

  Vinnuskólinn er í samstarfi við skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar (SFS) varðandi þjónustu við nemendur með fatlanir en starfsfólk þar hefur sérþekkingu á málaflokknum.

  Nemendur í Klettaskóla  (hlekkur opnast í nýjum glugga) starfa í hóp við félagsmiðstöðina Öskju (hlekkur opnast í nýjum glugga) í samstarfi við Vinnuskólann. Nemendur með fatlanir sem ganga í aðra skóla starfa ýmist í frístundaklúbbum á vegum SFS eða í hefðbundnum hópum. 

  Skrá verður nemendur í Vinnuskólann þó svo að þeir starfi í sértæku starfi í sinni félagsmiðstöð/frístundaklúbbi þar sem Vinnuskólinn greiðir þeim laun.  

  Nánar um sértækt félagsmiðstöðvastarf SFS má finna hér (hlekkur opnast í nýjum glugga).