Hlutverk Vinnuskólans

Megin hlutverk Vinnuskóla Reykjavíkur er að veita nemendum úr efstu bekkjum grunnskóla Reykjavíkur uppbyggileg sumarstörf ásamt fræðslu í öruggu starfsumhverfi. Öllum nemendum 8., 9. og 10. bekkja býðst að koma til starfa við fjölbreytt verkefni sem flest snúa að garðyrkju og umhirðu í borginni.

Markmið með stofnun Vinnuskólans árið 1951 voru þau að tryggja að unglingar í borginni hefðu þroskandi vinnu yfir sumartímann og að ala með þeim almennar dyggðir eins og reglusemi, stundvísi og ábyrgðartilfinningu. Þessi markmið hafa lítið breyst í gegnum tíðina.

Við leggjum áherslu á að starfsumhverfið sé hvetjandi og gefandi og vinnum að því með markmiðasetningu með nemendum, auk þess sem þeir fá umsagnir um sín störf í lok sumars.